Efling gagnrýnnar hugsunar í skólastarfi
Gagnrýnin hugsun felst fyrst og fremst í því að trúa ekki öllu því sem maður upplifir án þess að skoða nánar hvað í því felst. Að þjálfa gagnrýna hugsun er mikilvægur lærdómur sem nýtist nemendum okkar mjög vel til dæmis í hröðum heimi internetsins þar sem nauðsynlegt er að vera læs og gagrýninn. Á þessu skemmtilega og hagnýta námskeiði eru grunnþættir gagnrýninnar hugsunar kynntir en þeir eru að skynja, undrast og efast, að spyrja, að mynda sér skoðun og að rökræða og rökstyðja. Kennarar læra skemmtilegar leiðir til að auka gæði spurninga í skólastarfi sem fá nemendur til að hugsa og svara á gagnrýnan hátt. Þátttakendur á námskeiðinu fá tækifæri til að skoða ýmis mál úr hversdaglegum veruleika, mynda sér skoðun og rökræða við aðra þátttakendur. Námskeiðið er góður undirbúningur til þess að innleiða frekari samræðu í skólastarf og efla gagnrýna hugsun nemenda.
- Markmið: Kynnast heimspekinni og hvernig hún nýtist í daglegu skólaatarfi
- Markhópur: Allir leik- grunn- og framhaldsskólakennarar
- Lengd: 4 klst
- Gögn: Þátttakendur geta fengið gögn í tölvupósti eftir námskeiðið
Leiðbeinandi
-
Jóhann Björnsson Gagnrýnin hugsun og heimspekilegar samræður í skólastarfi
Heimspekingurinn okkar, hann Jóhann, lauk BA námi í heimspeki frá Háskóla Íslands. Eftir það náði hann sér í MA próf í sömu grein frá Kaþólska háskólanum í Leuven í Belgíu. Síðan tók hann kennsluréttindi og hefur kennt við Réttarholtsskóla frá árinu 2001 að einum vetri undanskildum. Helstu kennslugreinar Jóhanns eru heimspeki, lífsleikni og þjóðfélagsfræði. Veturinn 2007-2008 starfaði Jóhann í fræðsludeild Alþjóðahúss og stóð fyrir fræðslu í fyrirtækjum og skólum um fordóma og fjölmenningu. Oftar en ekki var hann beðinn um að koma með fræðslu þar sem samskiptaerfiðleikar voru á milli útlendinga og Íslendinga.
Heimspekin er helsta áhugamál Jóhanns og þá einkum það sem kallast hversdagsheimspeki (e. popular philosophy) sem er heimspeki með almenningi þar sem engrar kunnáttu er krafist af almenningi til þess að geta stundað saman heimspeki. Heimspeki með börnum, heimspekikaffihúsið og heimspekileg ráðgjöf eru dæmi um hvernig stunda má hversdagsheimspeki.