Heimspekingurinn okkar, hann Jóhann, lauk BA námi í heimspeki frá Háskóla Íslands. Eftir það náði hann sér í MA próf í sömu grein frá Kaþólska háskólanum í Leuven í Belgíu. Síðan tók hann kennsluréttindi og hefur kennt við Réttarholtsskóla frá árinu 2001 að einum vetri undanskildum. Helstu kennslugreinar Jóhanns eru heimspeki, lífsleikni og þjóðfélagsfræði. Veturinn 2007-2008 starfaði Jóhann í fræðsludeild Alþjóðahúss og stóð fyrir fræðslu í fyrirtækjum og skólum um fordóma og fjölmenningu. Oftar en ekki var hann beðinn um að koma með fræðslu þar sem samskiptaerfiðleikar voru á milli útlendinga og Íslendinga.
Heimspekin er helsta áhugamál Jóhanns og þá einkum það sem kallast hversdagsheimspeki (e. popular philosophy) sem er heimspeki með almenningi þar sem engrar kunnáttu er krafist af almenningi til þess að geta stundað saman heimspeki. Heimspeki með börnum, heimspekikaffihúsið og heimspekileg ráðgjöf eru dæmi um hvernig stunda má hversdagsheimspeki.